Starfsreglur Jakobsson Capital

Starfsreglur þessar eru settar með vísan til 1. mgr. 20. gr. reglugerðar (ESB) nr. 596/2014 (MAR) og framselda reglugerð (ESB) nr. 2016/958.

Markmið þessara starfsreglna er að tryggja faglega, siðferðislega og ábyrga hegðun starfsmanna Jakobsson Capital. Reglurnar skulu leiðbeina starfsmönnum í daglegu starfi og stuðla að trausti gagnvart fyrirtækinu, markaðsaðilum og viðskiptavinum fyrirtækisins, allt í því skyni að tryggja sem mesta sanngirni, ráðvendni og gagnsæi á markaðnum þannig að öll verðmöt frá fyrirtækinu séu sett fram á hlutlægan hátt og þannig að þær villi hvorki um fyrir markaðsaðilum né almenningi.

Allir starfmenn Jakobsson Capital (óháð starfshlutfalli) skulu, með sannanlegum hætti, fá eintak af starfsreglum þessum við upphaf starfa.

1

Verðmöt, svo og aðrar fjárfestingarráðleggingar, hér eftir „verðmöt“, skulu samin í samræmi við framselda reglugerð (ESB) nr. 2016/958 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 596/2014 að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um tæknilegt fyrirkomulag í tengslum við hlutlæga framsetningu fjárfestingarráðlegginga og annarra upplýsinga sem fela í sér ráðleggingu eða tillögu um fjárfestingaráætlun og upplýsingagjöf um tiltekna hagsmuni eða tilgreiningu á hagsmunaárekstrum sbr. og einnig reglugerð (ESB) nr. 596/2014 (MAR).

2

Starfsmönnum Jakobsson Capital er óheimilt að stunda skuldsett kaup eða skortsölu í þeim verðbréfum sem Jakobsson Capital verðmetur. Starfsmenn skulu stunda allar fjárfestingar í þeim verðbréfum sem Jakobsson Capital verðmetur með það að markmiði að viðhalda heiðarleika og trúverðugleika fyrirtækisins.

3

Starfsmönnum Jakobsson Capital er með öllu óheimilt að eiga verulegan hlut í þeim verðbréfum sem Jakobsson Capital verðmetur. Með verulegum hluta er átt við yfir 0,01% af útgefnu hlutafé.

4

Starfsmönnum Jakobsson Capital er óheimilt að eiga viðskipti með verðbréf tveimur vikum fyrir útgáfu verðmats.

5

Starfsmenn Jakobsson Capital þurfa í upphafi hvers árs eða eigi síðar en 31. mars ár hvert að tilkynna endurskoðunarskrifstofunni Vefskil ehf. um allt eignarhald í skráðum félögum og verðbréfaviðskipti ársins á undan.

6

Starfsmenn Jakobsson Capital skulu víkja eða láta aðra starfsmenn sjá um verðmat ef hagsmunatengsl eru til staðar. Þannig skal gæta þess að óhæði gagnvart því félagi sem verðmat beinist að hverju sinni sé hafið yfir allan vafa, bæði í raun og ásýnd. Starfsmaður skal gæta þess að upplýsa um önnur tengsl sem kunna að vera til staðar en í gegnum eignarhald á verðbréfi, t.d. í gegnum fjölskyldutengsl og/eða nána vináttu við stjórnanda/stjórnendur þess félags sem verðmat beinist að og/eða ráðandi eiganda/eigendur. Sé einhver vafi um hagsmunatengsl skal starfsmaður upplýsa framkvæmdastjóra um hin mögulegu tengsl og skal framkvæmdastjóri taka ákvörðun hvort starfsmaðurinn eigi að víkja. Að því marki sem raunveruleg eða hugsanleg hagsmunatengsl séu eða kunni að vera til staðar, eða einhver atvik eru fyrir hendi sem eðlilegt er að ætla að geti dregið úr raunverulegri eða ásýndarlegri hlutlægni upplýsinganna, skal upplýsa um þau í verðmatinu.

7

Vinnuskjöl Jakobsson Capital skulu ávallt vera á lokuðu skjalavistunarsvæði sem aðeins starfsmenn hafa aðgang að. Starfsmenn skulu gæta þess að tryggja öryggi allra gagna í hvívetna.

8

Starfsmönnum Jakobsson Capital ber eftir fremsta megni að kanna áreiðanleika allra upplýsinga sem settar eru fram. Þeir skulu jafnframt gæta þess að hverju sinni sé þess gætt að staðið sé undir þeim gæðakröfum sem gerðar eru til úrvinnslu, framsetningar og yfirferðar á verðmötum áður en þau eru kynnt viðskiptavinum. Starfsmenn skulu vinna verðmöt af kostgæfni og með það markmið að skila áreiðanlegum, hlutlausum og vel ígrunduðum verðmötum.

9

Starfsmenn Jakobsson Capital skulu vera samkvæmir í aðferðum sínum við vinnslu verðmata. Ef breytt er frá aðferðum milli verðmata skal starfsmaðurinn útskýra í verðmatinu allar breytingar á þeim aðferðum.

10

Framkvæmdastjóri Jakobsson Capital skal hafa verðbréfaréttindi, sbr. 40. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga, sbr. reglugerð nr. 1125/2021 um verðbréfaréttindi, ásamt síðari breytingum. Það skal vera í verkahring framkvæmdastjóra að tryggja daglega eftirfylgni við reglur þessar í störfum félagsins og mun endurskoðunarskrifstofan Vefskil ehf. hafa eftirlit með verðbréfaviðskiptum starfsmanna. Framkvæmdastjóri Jakobsson Capital skal tryggja að þeir starfsmenn sem veita þjónustu fyrir hönd fyrirtækisins búi yfir nauðsynlegri þekkingu og hæfni til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt þessum starfsreglum.