Verðbólguspá febrúar 2018
Spáum 0,53% hækkun vnv í febrúar
Verðbólgan í febrúar 2,2%: Capacent spáir 0,53% hækkun vísitölu neysluverðs (vnv) í febrúar. Ef verðbólguspá Capacent gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga lækka úr 2,4% í 2,2% en vísitala neysluverðs hækkaði um 0,7% í febrúar í fyrra. Helstu áhrifaþættir á verðlag í febrúar eru útsölulok.
Hækkanir á verði vegna útsöluloka: Minni verðlækkun vegna útsala leiðir væntanlega til minni hækkunar vegna útsöluloka. Verð á fatnaði í janúar lækkaði um 10% sem er heldur minna en að öllu jöfnu. Fataútsölum lýkur í febrúar og koma hækkanir vegna útsöluloka á fatnaði fram í febrúar og mars. Capacent gerir ráð fyrir um 3,5% hækkun á verði fatnaðar í febrúar sem leiðir til um 0,11% hækkunar á vnv. Capacent gerir ráð fyrir að verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hækki um 6,5% en verð þeirra lækkaði um tæplega 6% vegna útsala. Hækkun verðs á húsgögnum og heimilisbúnaði hefur um 0,24% áhrif á vnv til hækkunar. Verð á tölvum, sjónvörpum og öðrum raftækjum lækkaði um rúmlega 3,5% vegna útsala og gerir Capacent ráð fyrir um 4% hækkun sem hefur 0,04% áhrif á vnv til hækkunar. Samtals hækkar vísitala neysluverðs því um 0,39% vegna útsöluloka.
Fimm mínútur af frægð:. Fasteignaverð á landsbyggðinni var í sviðsljósinu í síðasta mánuði. Capacent hefur bent á að miklar sveiflur eru í fasteignaverði á landsbyggðinni og í kjölfar mikillar hækkunar kemur lækkun og öfugt. Hagstofan er ekki öfundsverð að mæla breytingar á fasteignaverði á milli mánaða á Húsavík og Sauðárkróki. Capacent gerir ráð fyrir að fasteignaverð í vísitölu neysluverðs hækki um 0,1% sem hefur 0,02% áhrif á vnv til hækkunar. Samtals mun fasteignaliður vísitölunnar sem inniheldur meðal annars leiguverð, viðhald, hita og rafmagn, auk fasteignaverðs leggja til um 0,04% til hækkunar vnv.
Niðurgangur á olíumörkuðum: Heimsmarkaðsverð á olíu er búið að vera á súrrandi niðurleið síðan um mánaðarmótin og lækka um 10%. Capacent gerir þó ráð fyrir óbreyttu eldsneytisverði og að lækkun eldsneytisverð verði ekki fyrr en eftir mælingu vísitölunnar í febrúar.
Er það satt sem þeir segja um landann?: Samkvæmt lauslegri könnun Capacent er umtalsverð hækkun á flugfargjöldum. Flugfargjöld hækka oftast í febrúar er landinn er orðinn leiður á myrkrinu og kuldanum. Capacent gerir ráð fyrir um 7% hækkun flugfargjalda í febrúar en þau hækkuðu um tæplega 4% á sama tíma í fyrra. Hækkun flugfargjald mun hafa 0,08% áhrif á vnv til hækkunar.