Verðbólguspá ágúst 2018

Verðbólgan óbreytt í 2,7%: Ef verðbólguspá Capacent gengur eftir mun vísitala neysluverðs (vnv) hækka um 0,25% í ágúst. Verðbólgan á ársgrunni mun því vera óbreytt í 2,7%.

Fötin skapa manninn eða viltu vera púkó?: Nú fer hver að verða síðastur að grípa fatalarfa á útsölu. Að öllu jöfnu hækkar verð fatnaðar í ágúst í kjölfar útsöluloka. Á síðasta ári hækkaði verð fatnaðar um 2,5% í ágúst en verð fatnaðar hefur hækkað um 5,5% að meðaltali í ágúst á síðustu árum. Capacent gerir ráð fyrir að verð fatnaðar hækki um rúmlega 3,5% í ágúst sem hefur 0,12% áhrif á vnv til hækkunar. Íslenskir fatakaupmenn hafa átt í harðri samkeppni við erlenda fataverslun síðustu 2 árin og voru fataútsölur óvenjulega lengi á síðasta ári og gerir Capacent ráð fyrir að svo verði einnig nú.

Húsgagna- og húsbúnaðarútsölum lýkur oftast í ágúst líkt og fataútsölum og gerir Capacent ráð fyrir að verðhækkun á húsgögnum og húsbúnaði hafi 0,07% áhrif á vnv til hækkunar. Á móti byrja útsölur á raftækjum, verkfærum, garðáhöldum og sumarvörum í ágúst sem hefur 0,1% áhrif á vnv til lækkunar skv. spá.

Kílóið af súpukjöti hækkaði í dag: Nýtt grænmeti og ávextir koma í búðir ágúst og hækkar verð á grænmeti og ávöxtum í ágúst og september. Capacent gerir ráð fyrir að svo verði einnig nú og að matvælaverð hækki um 0,6% sem hefur 0,08% áhrif á vnv til hækkunar. Gengi krónu hefur verið stöðugt undanfarið og verð innfluttra matvæla ólíklegt til að hækka mikið á næstunni. Almennar launahækkanir og innlendur kostnaðarþrýstingur er hins vegar líklegur til að ýta innlendu matvælaverði upp á næstu mánuðum. Capacent gerir ráð fyrir mörgum smáum verðhækkunum vegna kostnaðarverðshækkana eins og t.d. á veitingum, viðhaldi ökutækja, heilbrigðis- trygginga- og fjármálaþjónustu. Skólarnir byrja í lok ágúst og gerir Capacent ráð fyrir 1,5% hækkun á menntun sem hefur rúmlega 0,01% áhrif á vnv til hækkunar.

Enn líf á fasteignamarkaði: Fasteignaverð hækkaði um 0,3% á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt síðustu verðmælingu Þjóðskrár Íslands. Þrátt fyrir að verulega sé að hægja á hækkun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu er enn mikil spenna á fasteignamarkaði á landsbyggðinni. Capacent gerir ráð fyrir 0,65% hækkun á fasteignaverði og 0,25% hækkun á leiguverði og 0,2% hækkun á viðhaldskostnaði. Samtals leggja fasteignaliðirnir til um 0,15% til hækkunar á vnv.

Hvenær hækka flugfargjöld? Lausleg könnun Capacent bendir til að flugfargjöld hafi lækkað mikið að venju í ágúst. Capacent gerir ráð fyrir 11,5% lækkun flugfargjalda sem hefur 0,13% áhrif á vnv til lækkunar. Samkvæmt könnun Capacent verður innlendum flugfélögum ekki að ósk sinni um hækkun flugfargjalda en Capacent sýnist lækkun flugfargjalda í ágúst vera sú sama og á síðasta ári.

Skoða greiningu →
Dreifing er óheimil nema með samþykki höfundar