Svarti Pétur

Dúndur og diskó: Kaupskil og Trinity Investments hafa nú lokið við sölu á tæplega 29% hlut í Arion banka fyrir 39 milljarða króna á genginu 75 kr. Útboðið virðist hafa heppnast vel og mikil eftirspurn eftir hlutafé bankans en um 70% kaupenda voru erlendir. Á íslenskan mælikvarða var útboðið risastórt og ljóst að eftirspurn eftir hlutafé bankans þyrfti að stórum hluta að koma erlendis frá.

Ríkið með Svarta Pétur?  Það er vel að skráningin heppnaðist vel. Hins vegar hefur ríkið haft á stefnuskrá sinni í nærri 9 ár að losa um eignarhald sitt í fjármálastofnunum en ríkið á nú nærri 100% í Landsbankanum og Íslandsbanka. Staðan á fjármálamarkaði er keimlík því sem var á níunda áratug síðustu aldar og byrjun þess tíunda á síðustu öld. Ríkið átti þá að fullu tvo ríkisbanka en til staðar var einn banki í einkaeigu og einn fjárfestingarbanki, FBA. Einn grundvallar munur er þó á en eigið fé hinna tveggja ríkisbanka var afskaplega lítið eða um 50 ma.kr. að núvirði þegar einkavæðingin hófst í lok tíunda áratugarins. Samtals nemur eign ríkisins í eigin fé Landsbankans og Íslandsbanka 388 ma.kr. eða tífaldri fjárhæð útboðs Arion banka. Ef horft er til þess að ríkið ætli sér að eiga um 35% í Landsbankanum til framtíðar er fjárhæðin sem ríkið þarf að selja 310 ma.kr. Ef ríkið setur sama verðmiða á Landsbanka og Íslandsbanka með tilliti til eigin fjár eða 0,67 (P/B) nemur fjárhæðin 207 ma.kr. Það er því mikið verk fyrir höndum. Af niðurstöðum útboðs Arion banka er ljóst að hvernig heppnast til með sölu Landsbanka og Íslandsbanka fer eftir list erlendra fjárfesta á íslenskum bönkum.

Góðir dagar á skuldabréfamarkaði: Síðasta vika var fjárfestum á skuldabréfamarkaði góð en gengi óverðtryggðra ríkisbréfa hækkaði um 0,16%. Gengi verðtryggra skuldabréfa fikraði sig einnig upp á við. Líðandi vika hefur einnig verið skuldabréfafjárfestum fremur hagstæð en gengi óverðtryggðra ríkisbréfa hefur hækkað um 0,13% það sem af er vikunnar.

Skoða greiningu →
Dreifing er óheimil nema með samþykki höfundar