Markaðsaðilar spá hratt vaxandi verðbólgu
Góð vika fyrir langtíma ríkisbréf: Gengi óverðtryggðra ríkisbréfa hækkaði um 0,45% að meðaltali í síðustu viku. Gengi verðtryggðra íbúðabréfa lækkaði aftur á móti um 0,2% að meðaltali. Að mati Capcent höfðu fjárfestar heldur ofselt óverðtryggð langtíma ríkisbréf í kjölfar birtingu Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs í janúar.
Markaðsaðilar spá hratt vaxandi verðbólgu: Capacent er nokkuð hugsi yfir síðustu verðbólguspám markaðsaðila. Í febrúar í fyrra hækkaði vísítala neysluverðs um 0,7%. Fasteignaliður vísitölunnar hækkaði um 1% á þeim tíma og lagði til um helming af hækkun vísitölunnar. Flestir markaðsaðilar eru að spá lítilli hækkun eða óbreyttu fasteignaverði í febrúar. Ef gert hefði verið ráð fyrir sömu hækkun annarra undirliða og í fyrra hefðu verðbólguspár markaðsaðila hljóðað upp á 0,35% til 0,45% hækkun í febrúar. Það virðist því sem að markaðsaðilar séu að spá ört vaxandi verðbólgu. Ef spár markaðsaðila ganga eftir hefur vísitalan hækkað um 0,9% síðastliðna 3 mánuði eða sem jafngildir um 3,6% verðbólgu á ársgrunni. Það er svo sem ekki mikið í sögulegu samhengi en að meðaltali á árunum 1998 til 2017 hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,8% frá nóvember fram í febrúar. Á þessum árum hefur verðbólgan að meðaltali verið 4,6%. Capacent gerir ráð fyrir vaxandi verðbólgu og spáði rúmlega 0,5% hækkun vísitölu neysluverðs í febrúar. Ef spá Capcent gengur eftir hefur verðbólgan síðastliðna 3 mánuði verið 2,8%. Sjá má hækkun vísítölu neysluverðs frá nóvember til febrúar á mynd 4. Svarta línan sýnir meðalhækkun vísitölunnar. Á myndinni skera tveir toppar sig úr. Annars vegar toppurinn sem kom í kjölfar gengishruns á árunum 2008 og 2009. Hins vegar toppinn sem kom á árunum 2012 og 2013 í kjölfar kjarasamninga. Einnig er rétt að benda á að fyrstu árin eftir hrun voru árlegar skattahækkanir á eldsneyti og áfengi nokkuð miklar. Þótt að nærri 10 ár séu liðin frá hruni virðist orðin venja að hækka skatta á áfengi og eldsneyti um áramót.