Krúttbanki, Gleðibanki eða lífeyrissjóður
Krúttbanki, Gleðibanki eða lífeyrissjóður: Nú er orðið nokkuð langt um liðið síðan við Íslendingar gengum hinn gyllta breiða bankaveg. Fyrst eftir bankahrun var mikið talað um endurskipulagningu bankakerfisins og horft til sparisjóðakerfisins sem hafði að mestu staðið af sér þann storm sem gekk yfir haustið 2008. Töluverðum tíma og fjármagni var eytt í endurreisn kerfisins.
Eins og oft endar kvöldið öðruvísi en ætlað var. Flestum sparisjóðum sem voru starfandi árið 2009 hefur verið lokað. Það skyldi engan undra því sjóðirnir voru með vindinn í fangið frá fyrsta degi. Rekstrarumhverfi þeirra var orðið erfitt fyrir hrun vegna stærðarhagkvæmni í bankarekstri sem fer sífellt vaxandi vegna framþróunar í tölvu- og upplýsingatækni, auk sífellt flóknara og meira íþyngjandi eftirlits.
Öfganna á milli: Í ljósi stærðarhagkvæmni hafa viðskiptabankar leitast við að stækka. Hins vegar býður hið smáa íslenska fjármálakerfi ekki upp á að íslenskir viðskiptabankar nái hagkvæmustu stærð. Þrátt fyrir að íslenskir bankar séu mjög smáir á alþjóðlegan mælikvarða eru þeir stórir út frá efnahagslegu sjónarmiði. Af þeim sökum er eiginfjárkrafa Fjármálaeftirlitsins há til viðskiptabankanna. Eiginfjárkrafa Fjármálaeftirlitsins á viðskiptabankanna er um 20% en erfitt er að ná viðunandi arðsemi á svo mikið eigið fé nema vaxtamunur sé mikill. Það er því til lítils að vera hugsandi yfir öllum gulu miðunum og vaxtanótunum.
Bankakerfið er að minnka hratt sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF) enda fast milli steins og sleggju. Eignir viðskiptabanka og sparisjóða námu 136% af VLF árið 2017 og er nú svo komið að íslenskt bankakerfi er orðið eitt það minnsta í Evrópu en samkvæmt Evrópska seðlabankanum er bankakerfi Evrópulanda að meðaltali 320% af VLF. Íslendingar vilja oft horfa til Norðurlandanna og má benda á að finnska viðskiptabankakerfið var um 260% af VLF árið 2016. Þegar litið er til stærðar eru það helst lönd Austur-Evrópu sem eru með innlent bankakerfi að sömu stærð og það íslenska.
Minn hinsti dans: Smæð og samdráttur viðskiptabankakerfisins veldur forsvarsmönnum viðskiptabankanna væntanlega hugarangri. Viðskiptavinir bankanna eru í auknu mæli að leita annað enda dregur sífellt úr samkeppnishæfni og er lífeyrissjóðakerfið nú töluvert stærra en bankakerfið eða 152% af VLF. Á næstu árum mun reyna á framsýni og hugrekki bankastjórnenda en hugsanlegt er að tímar núverandi bankamódels fari senn að líða.
Þokkaleg vika á skuldabréfamarkaði: Síðasta vika var þokkaleg á skuldabréfamarkaði og hækkaði gengi óverðtryggðra ríkisbréfa um 0,12% að meðaltali og gengi verðtryggðra íbúðabréfa um 0,02% að meðaltali.
Skoða greiningu →