Kauptækifæri í langtíma óverðtryggðum skuldabréfum?
Valíum á verðbréfamarkaði: Skuldabréfamarkaðurinn er eins og valíum á verðbréfamarkaði. Ávöxtunarkrafa skuldabréfa er búin að vera lítið breytt síðastliðinn mánuð. Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra skuldabréfa hefur fikrað sig örlítið upp á við síðastliðin nmánuð og hélt því áfram í síðustu viku og lækkaði gengi ríkisbréfa um 0,18%. Ávöxtunarkrafa verðtryggðra íbúðabréfa fikraði sig örlítið niður á við í síðustu viku og hækkaði gengi verðtryggðra bréfa um 0,04% að meðaltali. Ávöxtunarkrafa verðtryggðra bréfa hefur verið nær óbreytt í 1,9% frá áramótum eða í 8 mánuði.
Haukur eða dúfa? Vaxtaákvörðunardagur er þann 29. ágúst næstkomandi og er nýr nefndarmaður í Peningastefnunefnd, Rannveig Sigurðardóttir. Rannveig hefur unnið lengi í Seðlabankanum og er ólíklegt að ný framúrstefnuleg sjónarmið komi því inn í Peningastefnunefnd. Að mati Capacent er líklegast að vextir verði óbreyttir þótt að alltaf sé möguleiki á vaxtahækkun en hann er þó harla lítill. Verðbólgan tók að hækka í lok árs 2017 og hefur 12 mánaða verðbólga sveiflast milli 2% og 2,8% það sem af er 2018. Það eru tveir kraftar sem togast á í vísitölu neysluverðs. Innlendar kostnaðarverðshækkanir og minnkandi spenna á fasteignamarkaði.
Markaðurinn reiknar með vaxtahækkun og vaxandi verðbólgu: Helst mætti rökstyðja vaxtahækkun með því að benda á vaxandi verðbólguvæntingar sem hafa hækkað stanslaust allt árið þrátt fyrir að verðbólgan hafi sveiflast á þröngu bili. Flest bendir til þess að hörð átök verði á vinnumarkaði í vetur sem gætu helst rökstutt verðbólguvæntingar sem eru langt um hærri en meðalverðbólgan síðastliðin 5 ár.
Kauptækifæri í langtíma óverðtryggðum skuldabréfum? Verður verðbólgan um 3,4% að meðaltali næstu 5 árin? Meðalverðbólgan síðastliðin 5 ár eða síðan sumarið 2013 hefur verið 2%. Vissulega er sagan ekki alltaf góður mælikvarði á framtíðina en ljóst er að ef verðbólgan verður hærri en 3,4% næstu 5 ár að þá er Ísland jafnframt að kveðja þann efnahagslega stöðugleika sem hefur verið á Íslandi síðustu ár.
Skoða greiningu →