Hagar viðbrögð við afkomuviðvörun

Hagar sendu út frá sér tilkynningu í morgun vegna samruna félagsins við Olís. Olís verður hluti af rekstri Haga á fjórða ársfjórðungi bókhaldsársins 2018/19 sem er frá nóvember 2018 til febrúar 2019. Í tilkynningunni kom fram að vænt samlegðaráhrif eru um 600 m.kr. Einnig kom fram að gjaldfærður kostnaður vegna sameiningarinnar er nú þegar 235 m.kr. Það kemur ekki á óvart en sameiningar koma ekki ókeypis. Einnig lækkuðu Hagar afkomuspá sína. Hagar áætla að EBITDA verði 4.600 til 4.700 mr.kr. á rekstrarárinu 2018/19 en gerðu áður ráð fyrir 5.000 m.kr. Ástæða lægra EBITDA liggur í lægri framlegð vegna gengisveikingar krónunnar.

Síðasta verðmat Capacent á Högum hljóðaði upp á verðmatsgengið 59,6 án þess að tekið væri tillit til samruna Haga við Olís. Spá Capacent hljóðaði upp á 4.900 m.kr. EBITDA. Ef Capacent færir niður rekstrarspánna í 4.600 m.kr. EBITDA og lækkar framlegð allt spátímabilið lækkar verðmatið um 5% og fer verðmatsgengið í 56,5. Capacent hafði unnið bráðabirgða verðmat á Högum með Olís innanborðs. Verðmatsgengið var 64,1 en í því verðmati var aðeins gert ráð fyrir óverulegum samlegðaráhrifum. Ef tekið er tillit til samlegðaráhrifa og lítillega lægri framlegðar og kostnaðar við samruna er líklegt að verðmatsgengi Haga með Olís hækki örlítið. Nákvæmara verðmat kemur út í kjölfar þess að Hagar birta afkomu þriðja ársfjórðungs 2018/19.

Dreifing er óheimil nema með samþykki höfundar