Fauk trampólínið hjá ykkur í haustlægðinni?

Fauk trampólínið hjá ykkur í haustlægðinni? Á síðasta peningamálafundi vakti sérstaka athygli Capacent að Peningastefnunefnd undirstrikaði bæði vilja og getu til að halda verðbólgu við verðbólgumarkmið. Líkt og Capacent benti á í síðasta yfirliti eru verðbólguvæntingar langt yfir meðalverðbólgu síðustu ára og verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Þrátt fyrir ábendingu Capacent og Seðlabankans hefur það lítið bitið á verðbólguvæntingum og veltir Capacent fyrir sér hvort trúverðugleiki Seðlabankans sé fokinn líkt og trampólín í haustlægð.

Er sagan alltaf besti metilinn á framtíðna? Til að koma í veg fyrir vaxandi verðbólgu vegna snöggrar gengisveikingar getur Seðlabankinn beitt gjaldeyrisforðanum sem er í hæstu hæðum eða 670,4 ma.kr. í íslenskum króna, auk lánalína. Gjaldeyrisforði Seðlabankans kom ekki í veg fyrir fall krónunnar í bankahruninu en sagan er ekki alltaf besti metilinn á framtíðina. Þannig eru meiri líkur á gjaldeyrisforðinn haldi nú þar sem Seðlabankinn hefur stýritæki til þess að hafa áhrif á inn- og útstreymi. Það er ekki gefið að krónan taki mikla dýfu við næsta áfall í efnahagslífinu líkt og síðast. Það er heldur ekki gefið að ríkið eigi bankakerfið í rúmlega 60 ár eftir bankahrunið eins og eftir kreppuna miklu.

Hvar eru 100% lánin? Auk þess hefur Seðlabankinn þjóðhagsvarúðartæki sem bankinn hafði ekki fyrir hrun. Bankinn hefur áhrif á eiginfjárkröfu banka í gegnum sveiflujöfnunarauka og kerfisáhættuauka og getur því takmarkað útlánavöxt og mikla hækkun fasteignaverðs. Einnig getur Seðlabankinn sett hámarksveðsetningarhlutföll við fasteignaútlán. Hefur einhver séð 100% fasteignalán? Vissulega hefur hækkun fasteignaverðs verið mikil en fasteignaverð hækkaði mun meira fyrir hrun.

Kauptækifæri í langtíma óverðtryggðum skuldabréfum Verðbólguálagið hefur aukist ef eitthvað er frá síðasta yfirliti Capacent. Tímabundið getur verðbólgan vissulega farið vel yfir 3,5%. Spurningin er hins vegar sú hvort að verðbólgan verði að meðaltali yfir 3,5% til næstu 5 til 9 ára?

Með fjórar af fimm tölum og bónustöluna rétta í verðbólgu-lottóinu: Capacent var nánast með allar tölur réttar í verðbólgulottóinu. Capacent spáði 0,25% hækkun vísitölu neysluverðs (vnv) í ágúst en vnv hækkaði um 0,2%. Verð matvæla, eldsneytis, fatnaðar, þjónustu og annarra innfluttra vara hækkaði í grófum dráttum í samræmi við spá Capacent. Hins vegar hækkaði fasteignaliður minna en Capacent gerði ráð fyrir sem útskýrir frávik upp á 0,05%.

Skoða greiningu →
Dreifing er óheimil nema með samþykki höfundar