Úlfakreppa og fitusmánun

Úlfakreppa: Hlutabréfamarkaður hefur verið tragískt kómískur líkt og finnsk gamanmynd síðustu vikurnar. Frá byrjun júlí hefur OMXI8 lækkað um 8%. Uppgjör Icelandair olli miklum vonbrigðum og virtist af fréttaflutningi líkt og fyrirtækið væri með annan fótinn í gjaldþroti. Hér er líklega um að ræða fráhvörf lærðrar hegðunar. Eiginfjárstaða Icelandair er mjög sterk eða um 55 ma.kr. og eiginfjárhlutfallið um 32%. Þannig er staða félagsins allt önnur en viðskiptabankanna fyrir hrun þar sem eigið fé var mjög lítið og voru þeir því ofurseldir fjármögnun. Ljóst er að fordæmalausum vexti í ferðþjónustu er að ljúka. Fyrir utan Icelandair mun samdráttur í ferðaþjónustu hafa einhver áhrif á fasteignafélögin og smávægileg áhrif á smásölufyrirtæki líkt og N1 og Haga. Á móti kemur að samdráttur í ferðaþjónustu dregur úr spennu á vinnumarkaði sem væri til hagsbóta fyrir flest félög í Kauphöll. Uppgjör félaga í Kauphöllinni bera með sér að launakostnaður er íþyngjandi og að tekjur séu heldur lægri en gert var ráð fyrir.

Á botnfiskveiðum: Mörg tækifæri eru á markaði og eru verðkennitölur á innlendum hlutabréfamarkaði lágar í samanburði við erlendan hlutabréfamarkað og er markaðsvirði sumra félaga undir eigin fé þeirra. Það hefur því sjaldan viðrað jafnvel til botnfiskveiða og festist Eimskip í botnvörpu Samherja í síðasta mánuði

Pakka saman eða bíta í skjaldarrendur: Það sem veldur áhyggjum er að eftir afnám gjaldeyrishafta virðist eftirspurn á hlutabréfamarkaði hafa þornað upp. Á mynd 1 má sjá hækkun hlutabréfavísitölu Gamma og framboð hlutafjár í hlutafjárútboðum. Á árunum 2012 og 2013 var mikið framboð hlutafjár vegna útboða og um 30% hækkun á hlutabréfaverði. Nær ekkert framboð var vegna hlutafjárútboða á árunum 2016 og 2017 og hlutabréfaverð óbreytt. Mikið framboð kom á markaðinn nú í maí og júní í ár þegar Arion og Heimavellir komu á markað og hefur hlutabréfaverð lækkað nær stanslaust síðan. Vissulega hefur umgjörð og regluverk styrkst á hlutabréfamarkaði eftir hrun. Hins vegar hafa grunnstoðirnar sjaldan verið veikari og virðist lindin vera að þorna upp.

Fitusmánaðir bankar: Niðurlæging hlutabréfamarkaðarins náði líklega hámarki í síðustu viku er bankarnir voru fitusmánaðir og sagt að fara í megrun. Það er erfitt að ná upp viðunandi arðsemi þegar eiginfjárhlutfallið er yfir 20% eða líkt og að keppa í maraþoni með fituprósentu yfir 20%.

Eina skjólið í verðtryggðum skuldabréfum: Eina skjólið á verðbréfamarkaði virðist vera í verðtryggðum skuldabréfum en gengi verðtryggðra íbúðabréfa hækkaði um 0,5% í síðasta mánuði en gengi óverðtryggðra skuldabréfa lækkaði um rúmlega 0,7% á sama tíma.

Skoða greiningu →
Dreifing er óheimil nema með samþykki höfundar