Verðbólguspá júlí

Verðlag óbreytt í júlí

Verðbólgan við verðbólgumarkmið: Ef verðbólguspá Capacent gengur eftir mun vísitala neysluverðs (vnv) lækka um 0,05% í júlí. Verðbólgan á ársgrunni mun því vera óbreytt í 2,6%.

Útsölur: Að venju eru það útsölur sem hafa mest áhrif á vísitölu neysluverðs í júlí. Capacent gerir ráð fyrir að útsöluáhrif verði ögn minni en á síðasta ári. Lítilsháttar gengisveiking síðustu mánuði ræður þar mestu. Fataútsölur munu leiða til 0,34% lækkunar vnv í júlí en Capacent gerir ráð fyrir 10,5% lækkun á fataverði. Útsölur á húsgögnum og heimilisbúnaði munu hafa 0,1% áhrif á vnv til lækkunar og gerir Capacent ráð fyrir um 2,7% lækkun þess liðar. Ásamt fatnaði og húsgögnum eru einnig útsölur eða tilboð á raftækjum, leikföngum og ýmsum sumarvörum á þessum árstíma sem hefur 0,02% áhrif á vnv til lækkunar. Samtals hafa því útsölur 0,46% áhrif á vnv til lækkunar.

Verð matvæla og eldsneytis að mestu óbreytt: Gengi krónu hefur lítið breyst síðastliðnar vikur eftir nokkra gengisveikingu í vor og þá sérstaklega gagnvart dollar. Capacent gerir ráð fyrir lítilsháttar hækkun á matvælaverði eða 0,2% sem hefur 0,03% áhrif á vnv til hækkunar. Capacent gerir ráð fyrir óbreyttu eldsneytisverði í júlí. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur heldur verið að lækka og er nú í 72 dollurum tunnan eftir að hafa farið hæst í 79 dollara tunnan í lok júní. Á móti hefur gengi krónu örlítið gefið eftir gagnvart dollar í júlí.

Það vantar fasteignaverðið inn í jöfnuna: Fasteignaverð hækkaði duglega í júlí á síðasta ári eða um 1,7%, auk þess hækkaði leiguverð um 0,36%. Samtals lagði fasteignaliður vísitölu neysluverðs til 0,4% til hækkunar á vnv á sama tíma í fyrra. Nú liggur fyrir að leiguverð lækkaði um 2,4% og að fasteignaverð hækkaði um 0,8% í síðustu mælingu. Það er því ljóst að áhrif fasteignaverðs á vnv eru mun minni en á sama tíma í fyrra. Þrátt fyrir mikla lækkun á leiguverði er vægi þess í vnv mun minna en fasteignaverðs eða 5,8% á móti 20,4%. Capacent gerir ráð fyrir að fasteignaliðurinn leggi alls 0,13% til hækkunar vnv.

Flugfargjöld taka flugið: Lausleg könnun Capacent bendir til að flugfargjöld hafi hækkað hraustlega nú í júlí. Það ætti svo sem ekki að koma á óvart en flugfargjöld hækka gjarnan á þessum árstíma. Verð flugfargjalda ræðst mjög af eftirspurn. Capacent spáir 19% hækkun flugfargjalda sem hefur 0,22% áhrif á vnv til hækkunar. Á sama tíma í fyrra hækkuðu flugfargjöld um 15,5%.

Gjaldeyris- og valíumforði Seðlabankans í hæstu hæðum: Ef spá Capacent gengur eftir verður verðbólgan við verðbólgumarkmið þrátt fyrir að gengi krónu hafi heldur verið að gefa eftir og verðlag sé komið að þolmörkum vegna launahækkana. Þegar fasteignamarkaðurinn hækkaði um tugi prósenta styrktist gengi krónu hratt og kom í veg fyrir verðbólguskot. Loks þegar gengi krónu gefur eftir, dregur hratt úr hækkun fasteignaverðs. Gjaldeyrisforði Seðlabankans er í hæstu hæðum og að því er virðist valíumforðinn líka.

Skoða greiningu →
Dreifing er óheimil nema með samþykki höfundar