Verðbólgan mun ná þér!
Verðbólgan mun ná þér!: Í kjölfar óvæntrar hækkunar 12 mánaða verðbólgu úr 1,9% í 2,4%, lækkaði gengi óverðtryggðra ríkisbréfa að meðaltali um 0,75%. Gengi óverðtryggðra ríkisbréfa lækkaði þó meira fyrst um sinn. Að mati Capacent lækkaði gengið fullmikið. Fljótt á litið virtust margir sveiflukenndir liðir sveiflast með verðbólgunni í janúar. Að mati Capacent er því líklegt að 12 mánaða verðbólga lækki eitthvað í febrúar. Þrátt fyrir það er ljóst að verðbólgan hefur brotið 2% múrinn og ekki útlit fyrir að verðbólgan fari aftur undir hann á næstunni.
Verðbólguáhættan: Capacent hefur með reglulegu millibili á síðustu árum birt mælingu á verðbólguáhættu. Oft er sett samasemmerki milli verðbólguálags og verðbólguvæntinga. Það er ekki fyllilega rétt en verðbólguálag samanstendur af verðbólguvæntingum og verðbólguáhættu (risk premium). Töluverð óvissa fylgir framþróun verðbólgu og eru flestir fjárfestar tilbúnir að greiða nokkuð umfram verð fyrir það öryggi sem fylgir verðtryggingunni og er þetta gjarnan kallað verðbólguáhætta eða risk premium.
Selja skammtíma en kaupa langtíma? Mæling verðbólguáhættu gefur nokkra innsýn í hvort verðbólguálag til mismunandi tímalengda sé eðlilegt út frá líkindum og sögulegri þróun. Líkan Black er notað til að verðmeta áhættuna. Samkvæmt mælingunni er nú nokkuð meiri áhætta að fjárfesta í óverðtryggðum ríkisbréfum til 5 ára þar sem verðbólguálagið er 2,88% en til 9 ára þar sem verðbólguálagið er 3,10%. Sú niðurstaða fæst miðað við núverandi forsendur þar sem verðbólgan er 2,4% og staðalfrávik verðbólgunnar síðastliðinn 5 ár er 0,9%. Þannig eru eru heldur meiri líkur á að verðbólgan verði að meðaltali hærri en 2,88% til næstu 5 ára en 3,10% að meðaltali til næstu 9 ára. Verðbólguáhættan til 5 ára er því rúm 0,6% en tæplega 0,3% til 9 ára.
Verðbólguáhættan sjaldan verið lægri: Verðbólguáhætta samkvæmt mælingu fer sífellt lækkandi en staðalfrávik verðbólgunnar hefur farið hratt lækkandi og farið úr 1,5% í upphafi síðasta ár í 0,9%. Á sama tíma og staðalfrávik verðbólgu hefur lækkað hratt hefur verðbólguálag hækkað hratt.
Sjoppa til sölu, kostar eina tölu! Hlutabréfamarkaður tók dýfu í viðskiptum gærdagsins. Það ætti ekki að koma á óvart en umtalsverður hluti í Arion banka er til sölu eða að minnsta kosti 5% en líklegt markaðsvirði hlutarins er um 9 ma.kr.