Ágæt vika á skuldabréfamarkaði

Ágæt vika á skuldabréfamarkaði: Ágætis vika var á skuldabréfamarkaði í síðustu viku og hækkaði gengi óverðtryggðra ríkisbréfa um 0,16% að meðaltali. Gengi verðtryggðra íbúðabréfa mjakaðist einnig upp á við eða um 0,06% að meðaltali.

Ávöxtunarkrafa RIKB13 of há: Óeðlilega mikill munur er á ávöxtunarkröfu RIKB28 og RIKB31 og kemur það sterkt fram á framvirka óverðtryggða vaxtaferilinn.

Seðlabankinn ekki líklegur til að rugga bátnum: Þann 7. febrúar næstkomandi er stýrivaxtaákvörðun hjá Seðlabankanum. Capacent leggur rauðvínsflösku undir að Seðlabankinn haldi vöxtum óbreyttum. Vissulega hefur dregið mjög hratt úr hækkun fasteignaverðs. Á móti kemur að einkaneysla er með allra mesta móti, kjarasamningar eru lausir og líklega vill Seðlabankinn senda ríkisstjórninni tóninn út af nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi. Aukinn slaki í ríkisfjármálum þýðir aukið aðhald í peningamálum.

Allra augu á fasteignamarkaði: Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 0,2% í desember. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,4% í desember en verð á sérbýli lækkaði um 0,4%. Verðþróun fjölbýlis vegur mun þyngra í vísitölunni og því hækkaði vísitalan. Síðastliðna 3 mánuði hefur fasteignaverð nær staðið í stað. Hækkun fasteignaverðs síðastliðna 6 mánuði á ársgrunni er 3,6%. Sjá má þróun fasteignaverðs á mynd 4.

Dreifing er óheimil nema með samþykki höfundar