Verðbólguspá apríl

Verðbólgan er ekki alveg horfin: Ef það væru ekki enn þá leifar útsöluloka í vísitölukerfinu og það hefði ekki komið til hækkunar flugfargjalda í apríl væri fátt til að knýja verðbólguna í apríl. Verðbólguspá Capacent gerir ráð fyrir að vísitala neysluverðs (vnv) hækki um 0,34% í apríl og að hækkun flugfargjalda og fatnaðar vegna útsöluloka leggi til um tvo þriðju af hækkun vísitölu neysluverðs (vnv) í apríl. Verðbólgan á ársgrunni mun því hækka úr 2,9% í 3,2%.

Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkar meira: Fasteignaverð lækkaði um 1% í mars. Velta á fasteignamarkaði og aukið framboð húsnæðis síðustu vikur bendir ekki til verðhækkana á fasteignamarkaði. Capacent gerir ráð fyrir óbreyttu fasteignaverði í apríl og að húsnæðisliður vnv leggi 0,01% til hækkunar vnv. Vægi fasteignaverðs í vísitölu neysluverð er rúmlega 20% og samkvæmt spá Capacent mun vísitala neysluverðs án húsnæðis hækka um rúmlega 0,4% í apríl.

Heimsmarkaðsverð á olíu mjakast upp á við: Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað um 10% frá því í byrjun mars. Eldsneytisverð hér heima hefur hækkað um 1,5% samkvæmt mælingum Capacent. Hærra eldsneytisverð hefur 0,05% áhrif á vnv til hækkunar.

Sveiflur í gengi: Gengi krónu hefur sveiflast mikið síðastliðinn mánuð en gengi krónu nú er um 2 til 3% sterkara en það var í janúar og febrúar. Gengissveiflur koma fyrst fram í matvælaverði. Á móti sterkara gengi vinnur að flutningskostnaður hefur væntanlega verið að hækka vegna hærra olíuverðs. Samkvæmt heimildum Capacent er matvælaverð nær óbreytt milli mánaða og gerir Capacent ráð fyrir að matvælaliður vnv hafi engin áhrif á vísitölu neysluverðs í apríl.

Gleymdu ekki fermingarfötunum! Fatakaupmenn verða seint skaðir um að hafa kynt undir verðbólguna síðustu mánuði en verð fatnaðar í mars var 1,2% hærra en árið áður þrátt fyrir gengisveikingu. Capacent gerir ráð fyrir rúmlega 2% hækkun á verði fatnaðar í apríl. Síðustu áhrif útsöluloka munu koma fram í verðlagi í apríl, auk þess sem sumar- og fermingarföt munu fylla slár fatabúða. Hærra fataverð hefur 0,07% áhrif á vnv til hækkunar. Jafnframt gerir Capacent ráð fyrir örlítilli hækkun á húsgögnum, húsbúnaði, garðverkfærum leikföngum og tómstundavörum vegna útsöluloka og árstíðasveifla. Capacent gerir ráð fyrir óbreyttu verði bifreiða en samdráttur hefur verið í sölu bifreiða milli ára.

Það er gott að fá sér bjór í sólinni: Capacent gerir ráð fyrir smávægilegum verðskrárhækkunum veitingastaða. Á þessum árstíma er gott að fá sér bjór í sólinni.

Wow áhrifin: Samkvæmt könnun Capacent hafa millilandaflugfargjöld hækkað hressilega í apríl. Það var þó viðbúið þegar að mjög dregur úr framboði flugferða líkt og eftir fall Wow. Sama könnun bendir einnig til að flugfargjöld innanlands hafi staðið í stað eða lækkað í verði sem vegur á móti hækkun millilandaflugfargjalda. Capacent gerir ráð fyrir um 10% hækkun flugfargjalda sem hefur 0,14% áhrif á vnv til hækkunar.

Skoða greiningu →
Dreifing er óheimil nema með samþykki höfundar