Það eru að minnsta kosti jól á skuldabréfamarkaði

Það eru að minnsta kosti jól á skuldabréfamarkaði: Þótt kalt hafi verið á hlutabréfamarkaði síðustu mánuði, hefur heldur betur hitnað á skuldabréfamarkaði. Gengi óverðtryggðra skuldabréfa hefur hækkað um 1,3% að meðaltali í desember. Gengishækkunin hefur aðallega verið á lengri enda óverðtryggðra skuldabréfa. Eins og Capacent benti ítrekað á í haust var krafa langtíma óverðtryggðra of há í samanburði við skammtíma skuldabréf. Verðbólguálag til langstíma var hærra en til skammstíma og skaut það skökku við. Mun meiri líkur voru á að verðbólgan yrði að meðaltali yfir 4% til næstu 5 ára en til næstu 9 ára. Þróunin hefur nú snúist við og er verðbólguálag til 5 ára nú hærra en verðbólguálag til 9 ára. Að mati Capacent er ávöxtunarkrafa RIKB20 og RIKB22 enn heldur of lág í samanburði við RIKB28 og RIKB31. Gengi verðtryggðra skuldabréfa hefur hækkað um 1,1% síðastliðin mánuð. Gott gengi á skuldabréfamarkaði eru væntanlega góðar fréttir fyrir tryggingarfélögin og þá sérstaklega VÍS og Sjóvá sem hafa hátt vægi skuldabréfa í eignasafni.

Hinn „manískt depressive“ hlutabréfamarkaður: Að greina hlutabréfamarkað nú er eins og að greina heilbrigðan einstakling sem allir halda að sé veikur vegna þess að hann er með hor í nös og hálsbólgu. Fyrir rúmlega tíu til fimmtán árum síðan var þetta ekki alveg svo gott. Á þeim tíma voru allir langir í hlutabréfum og vel skuldsettir í erlendum gjaldmiðlum. Nú virðist málið að skortselja Icelandair og tala niður krónuna. Greiningardeild Capacent skilur hvorugt og finnst Icelandair ekki jafn hræðilegt flugfélag og margir vilja meina. Vissulega þarf að hagræða í rekstri og hugsanlega útvista starfsemi en það á víða við. Icelandair er eitt fárra félaga í Kauphöllinni sem hefur verið í beinni erlendri samkeppni áratugum saman. Raungengi krónunnar í nóvember var örlítið hærra en að meðaltali síðan 1980. Mestan þennan tíma komu gjaldeyristekjur Íslands frá sjávarútvegi. Nettó erlend skuldastaða þjóðarbúsins var hærri en landsframleiðslan. Staðan hefur heldur betur breyst á síðustu árum líkt og tölur um viðskiptahalla og erlendar eignir Íslendinga í útlöndum eru til vitnis um.

Obbosí: Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,74% í desember. Capacent spáði um 0,56% hækkun. Þrír liðir hækkuðu meira en Capacent gerði ráð fyrir og útskýrir frávik, matur bifreiðar og flugfargjöld.

Beðið eftir jólakortunum: Á síðustu árunum hefur bréfunum sem greiningardeild Capacent fær heldur farið fækkandi, þrátt fyrir að póstlúgan sé „vel merkt“. Deildin hefur ekki fengið nein jólakort í ár. Capacent óskar viðskiptavinum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs og „Push your Kaup-thinking“.

 

Skoða greiningu →
Dreifing er óheimil nema með samþykki höfundar